Skip to main content

Ísland er eyríki og í gegnum tíðina hefur líf fólksins í landinu verið nátengt hafinu duttlungum þess og gjafmildi. Hafstraumar í kringum landið stuðla að hlýrra loftslagi en hin norðlæga hnattstaða býður upp á og á mörkum mildra og kaldra hafstrauma streymir næringarríkur djúpsjór upp á yfirborðið og skapar aðstæður fyrir auðugt lífríki og gjöful fiskimið. Vernd hafanna hlýtur fyrir vikið að vera Íslendingum afar hugleikin því breytingar í hafinu hvort sem þær snúa að lífríki hafsins, súrnun sjávar eða breytingum á hafstraumum geta haft hér víðtæk áhrif.

Hrun síldarstofnsins og svartar skýrslur

Umhverfis Ísland eru ein gjöfulustu fiskimið í N-Atlantshafi. Íslendingar hafa alltaf sótt í þá matarkistu. Fyrst voru veiðar fyrst og fremst stundaðar í þeim tilgangi að afla fæðu. Veiðarnar þróuðust síðan og aflinn varð verslunarvara sem nýtt var til útflutnings. Lengst af var veiðin takmörkuð af tæknilegri getu. Þróun báta og veiðarfæra var hæg og afkastageta þeirra er stunduðu fiskveiðar var því takmörkuð. 

Undir lok 19 aldar og í byrjun 20 aldar urðu miklar framfarir í veiðum; skipaflotinn var vélvæddur og markaði það upphaf nútímavæðingar sjávarútvegs á Íslandi. Þróun í vinnslu og í tengslum við flutninga hafði líka sitt að segja. Erlend fiskiskip voru lengst af umsvifamikil á Íslandsmiðum, en á 20 öldinni færðu Íslendingar út fiskveiðilögsögu sína í nokkrum þrepum.   

Fiskveiðar hafa alla tíð verið mikilvægar fyrir íslenska þjóð, en á 20 öldinni skipaði sjávarútvegurinn sér sess sem meginútflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar og bar lengst af höfuð og herðar yfir aðrar útflutningsatvinnugreinar. Nam hlutdeild sjávarafurða á tímabili allt að 80% af heildarvöruútflutningi og stóð undir 60% af gjaldeyristekjum landsmanna. Hlutdeild sjávarútvegs í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar hefur dregist saman á þessari öld, en á síðustu áratugum hefur tekist að byggja upp nýjar atvinnugreinar og renna þannig fleiri stoðum undir efnahag landsins. Ísland er þó áfram í hópi þjóða þar veiðar úr villtum fiskstofnum hafa mikla efnahagslega þýðingu og  þættir eins og verðlag á mörkuðum og aflabrögð hafa því nú sem fyrr mikil áhrif á efnahag landsins. Góð stjórn veiða þar sem stuðlað er að skynsamlegri nýtingu og komið er í veg fyrir ofveiði og kapphlaup um fiskinn skiptir þannig gríðarlegu máli fyrir þjóðarhag. 

Íslendingar þekkja vel hverjar geta verið afleiðingar af ofveiði. Undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar hrundi, sökum ofveiði, stærsti síldarstofn heims – norsk íslenska vorgotssíldin. Veiðar fóru þá úr 770.000 tonnum árið 1966 niður í 55.000 tonn árið 1969. Í kjölfarið fylgdi ein dýpsta kreppa sem Íslendingar hafa upplifað á seinni tímum, með miklu atvinnuleysi og töluverðum fólksflótta. 

Hafrannsóknastofnun gaf út „svarta skýrslu“ árið 1975 um ástand botnfiskstofna við Ísland. Samkvæmt skýrslunni voru helstu botnfiskstofnar ofveiddir og nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir hrun. Skýrslan olli miklum umskiptum í viðhorfum til veiðiþols fiskistofna hér á landi og undirstrikaði mikilvægi þess að nýjum aðferðum yrði beitt við stjórn fiskveiða.  Í framhaldinu var farið að útdeila kvóta fyrir einstakar tegundir, fyrst fyrir síld 1975 og síðan loðnu árið 1980. Árið 1977 var tekið upp svokallað skrapdagakerfi í þorskveiðum, en sókn var þar takmörkuð með því að útdeila ákveðnum veiðidögum á ári og einnig mátti hlutfall á þorski í veiðum ekki fara upp fyrir ákveðið hámark.  Árið 1983 kom út önnur svört skýrsla. Ekki hafði tekist að draga nægilega úr sókn í helstu fiskistofna og ljóst mátti vera að enn þyrfti að endurskoða aðferðir til að koma böndum á veiðarnar.
Bird's eye view of breaking ocean wave

Frá ofveiði til sjálfbærrar nýtingar

Árið 1983 setti Alþingi lög um veiðar í landhelgi Íslands. Samkvæmt lögunum skildi leyfðum heildarafla deilt niður á skip í flotanum og skyldi hlutdeild ákvörðuð út frá veiðreynslu s.l. þriggja ára. Hvert skip fékk þannig úthlutað ákveðnum kvóta og er kerfið í daglegu tali kallað kvótakerfi.

Þó ýmiss gagnrýni hafi komið fram í tengslum við hið íslenska fiskveiðistjórnunarkerfi  hefur það skilað því að komið hefur verið í veg fyrir ofveiði, ekki er kapphlaup um fiskinn og stærð fiskveiðflotans hefur minnkað. Þróun nýtingar hefur verið á þann veg í framhaldinu að almennt þykja íslenskar fiskveiðar í dag mjög framarlega á alþjóðavísu á mælikvarða sjálfbærrar nýtingar fiskistofna og umgengni við lífríki hafsins. 

Ekkert land í heiminum er með jafn hátt hlutfall MSC sjálfbærnivottaðra fiskveiða, en 99% af þeim fiski sem veiddur er innan íslensku fiskveiðilögsögunnar er með slíka vottun.